Auðvitað fékk ég svo kast yfir því hver fyrsta uppskriftin ætti að vera og í framhaldinu ákvað ég að setja inn kvöldmatinn minn í kvöld. Hann var einfaldur og hversdagslegur og á það fullvel skilið að fá að prýða þessa síðu sem fyrsta uppskriftin.
Þegar ég var hálfnuð með eldamennskuna fékk ég þá flugu í höfuðið að sultaður rauðlaukur gæti passað vel með þessu og viti menn - það reyndist rétt a.m.k. hvað mína bragðlauka varðar.
Steiktur þorskur
2 egg
2 dl sojahveiti
krydd, t.d. sítrónupipar, kóríander og hvítlaukssalt
1 1/2 stórt þorskflak
olía til steikingar
sítrónusafi, má sleppa
Brjótið egg í djúpan disk og hrærið vel með gaffli. Setjið sojahveiti í annan djúpan disk og blandið kryddi vel saman við. Skerið þorskflak í hæfilega stóra bita og veltið fyrst upp úr eggjahræru og síðan upp úr sojahveiti. Hitið olíu á pönnu og steikið þorskbitana, kreystið sítrónusafa yfir fiskinn rétt áður en hann er fullsteiktur. Berið fram með soðnum rófum, sultuðum lauk og setjið smjörklípu og salt ofan á. Mæli líka með mjólkurglasi með þessu öllu saman.
Sultaður laukur - grunnuppskrift
3 rauðlaukar, gróft saxaðir
3-4 msk. olía, til steikingar
1/2 - 2/3 dl balsamedik
1/2 dl vatn
2-3 msk. Hermesetas-sætudropar, einnig má nota Canderel-strásætu)
2 tsk. engifer, eða 1 cm söxuð engiferrót
sítrónusafi, má sleppa
Steikið lauk í olíu í potti þar til hann verður glær, ekki brúna. Hellið balsamediki yfir laukinn og bætið svolitlu vatni saman við. Setjið sætudropa út í og hrærið vel í. Bætið engifer og sítrónusafa saman við, lækkið hitann og leyfið lauknum að malla í 10-15 mín. Hrærið reglulega í pottinum. Til að byrja með er svolítill vökvi á lauknum sem gufar síðan upp og eftir situr dökkur og karamellaður laukur. Þessa uppskrift er gott að stækka, t.d. fyrir jólin, því laukurinn geymist vel í lokuðu íláti í kæli.
Þessi uppskrift varð til eftir að villibráðarbæklingur Nóatúns datt inn um lúgun hjá mér fyrir jólin 2006. Þar var sultaður laukur sem var örugglega ekkert líkur þessum og í uppskriftinni var örugglega 1/2 kg af sykri. En það var nafnið sjálft sem kveikti hugmyndina og ég linnti ekki látum fyrr en þetta dásamlega meðlæti hafði litið dagsins ljós. Sultaður laukur passar rosalega vel með villibráð (lamb meðtalið) og nautakjöti og með slíkum máltíðum er ekki verra að hafa smjörsteikta sveppi við hliðina á honum. Það var bara núna í kvöld sem ég áttaði mig á því hvað hann passar vel með steikta þorskinum, breytti allri máltíðinni hreinlega í hið mesta sælgæti.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Frábær síða. Bíð spennt eftir fleiri uppskriftum :)
kveðja
Ágústa
Skrifa ummæli