miðvikudagur, 9. september 2009

Jógúrtsósa

Þessi sósa er bragðmikil og kælandi á sama tíma. Frábær með vel krydduðum mat og alveg örugglega góð með grillmatnum.

1 1/2 dl grísk jógúrt
2 msk. hvítvínsedik
3-4 hvítlauksgeirargeirar, smátt saxaðir
1-2 msk. steinselja, smátt söxuð
1 msk. ferskt kóríander, smátt saxað (má sleppa)
1 msk. graslaukur, smátt saxaður
salt og pipar
5 dropar Hermesetas sætuvökvi, eða 1/2 tsk. gerfistrásæta

Blandið öllu saman í skál og geymið í kæli í 2-3 klst. áður en bera á sósuna fram.

Kryddmiklar kjúklingabollur

Fékk hugmyndina af þessum frá facebook-hóp sem ég er í og skáldaði svo alls konar krydd saman við hana.

600 g kjúklingahakk eða úrbeinuð kjúklingalæri
2 egg
rífleg handfylli af fersku kóríander
6-10 hvítlauksgeirar
2-3 chili-aldin, fræhreinsuð
salt og pipar eftir smekk


Setjið allt nema kjúkling og egg í matvinnsluvél og maukið vel. Bætið kjúklingnum og eggjunum saman við og látið vélina ganga þar til blandan er orðin lík kjötfarsi.
Hitið ríflega af olíu á pönnu, búið til litlar bollur úr kjúklingablöndunni og steikið á öllum hliðum. Einnig má brúna bollurnar og hita síðan áfram í ofni.
Þessi réttur er frábær með steiktu graskeri og rauðlauk ásamt Baba Ganoush (sjá uppskrift hér fyrir neðan).

Einhvers konar Baba Ganoush (eggaldinmauk)

Baba Ganoush er eggaldinmauk sem ættað er frá Mið-Austurlöndum og er yfirleitt notað sem ídýfa fyrir brauð en það virkar líka vel sem sósa með ýmsum mat. Í upprunalegu uppskriftinni er notað tahini en hér er notast við sesamolíu og sesamfræ til að ná fram svipuðum áhrifum.

2 eggaldin (3 ef þau eru lítil)
sesamolía til að pensla með
1 laukur
3 msk. sesamolía
1/2 dl sítrónusafi
klípa af salti
1 msk. tamari-sojasósa
handfylli af kóríander
2-4 hvítlauksgeirar

Hitið ofninn í 200 °C. Skerið eggaldin í tvennt eftir endilöngu, leggið hlutana með hýðið niður á bökunarpappírsklædda ofnplötu og penslið yfir með sesamolíu. Bakið eggaldinhlutana í 20-30 mínútur og leyfið þeim síðan að kólna. Saxið lauk og steikið upp úr sesamolíu (þessu má sleppa). Skafið kjötið innan úr eggaldinhýðinu, t.d. með gaffli, og setjið í matvinnsluvél ásamt ölluð öðru hráefni. Látið vélina ganga þar til maukið er orðið vel samlagað og kælið maukið í a.m.k. 2 klst. áður en það er borið fram.