mánudagur, 12. nóvember 2007

Hið alræmda beikonsalat

Ég er enn þá í hversdagsmatnum. Kannski vegna þess að ég er að spara veisluföngin en kannski bara vegna þess að hversdagsmatur á svo stóran sess í lífi mínu, ég borða hann jú, oftar en fíneríið.
Þetta beikonsalat er búið að vera á matseðlinum hjá mér nánast upp á hvern einasta dag (stundum meira að segja tvisvar á dag) í heilt ár og ekki að ástæðulausu.

Beikonsalat

1 kjúklingalæri
Eðal-kjúklingakrydd frá Pottagöldrum
1 pk. beikon (því þyngri því betra)

Hitið ofninn í 200°C. Kryddið kjúklingalæri með kjúklingakryddi (eða öðru kryddi að eigin vali) og eldið í u.þ.b. 45 mín. Steikið beikon á pönnu eða á álpappír í ofni. Skerið kjúkling og beikon í litla bita eða teninga.

Sætar gulrætur:
150 - 200 g gulrætur, skornar í sneiðar
2 msk. bragðlítil olía, t.d. ísíó4
1-1 1/2 msk. Hermesetas sætudropar

Sjóðið gulrætur 5 mínútur, hellið vatninu af og setjið pottinn aftur á heita helluna. Hellið olíu yfir gulræturnar ásamt sætudropum og steikið í u.þ.b. 10 mínútur.

Salat:
icebergsalat
gúrka
tómatar
paprika
rauðlaukur

1 msk. Helmans-majónes

Skerið helling af grænmeti niður eftir smekk og hentisemi. Setjið kjúkling, beikon, steiktar gulrætur og majónes saman við og hrærið vel saman.

Ástæðan fyrir því að þetta salat er svo oft í matinn hjá mér er sú að það er svo auðvelt að hafa það með sér í nesti. Vegna þess að ég hef góða aðstöðu í vinnunni set ég kjúklinginn, beikonið og gulræturnar í sér box og hita upp áður en ég blanda því saman við salatið og majónesið. Til að flýta enn frekar fyrir elda ég yfirleitt heilan pakka af kjúklingalærum í einu og á í kæli til að grípa í á hverju kvöldi, það sama gildir um gulræturnar. Það er rosalega gott að setja eplabita út í þetta salat og "spari" sleppi ég kjúklingnum og hef tvöfaldan skammt af beikoni.

Einu kjúklingabringurnar sem ég borða eru frá Móa því aðrar kjúklingabringur innihalda yfirleitt sykur. Það sama gildir um kjúklingalæri því núna fyrir stuttu bætti Holtakjúklingur sykri í innihaldslýsinguna á kjúklingalærunum sínum.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Stórskemmtilega síða!