þriðjudagur, 13. nóvember 2007

Hveitikímskex

Þetta undarlega mjöl sem kallast hveitikím (a.t.h. ekki klíð) samræmist einhverra hluta vegna kolvetnislausu mataræði og hægt er að búa til úr því gerfibrauðsneiðar, pizzubotna og fleira. Hveitikím fæst í tveimur gerðum; annars vegar ljóst, ferskt hveitikím sem þarf að geyma í kæli og hins vegar dökkt, þurrkað hveitikím sem ekki þarf að geyma í kæli. Þurrkað hveitikím loðir illa saman og þess vegna á ég alltaf við ferskt hveitikím í uppskriftunum mínum nema annað sé sérstaklega tekið fram.

Hveitikímskex

30 g hveitikím
25-30 g sykurlaust síróp frá Da Vinci, bragð að eigin vali
1 msk. vatn
4-5 msk. olía til steikingar

Hrærið saman hveitikím, síróp og hluta af vatni. Bætið meira vatni saman við þar til blandan er orðin "slummu"-þykk. Blandan á ekki að leka of auðveldlega en heldur ekki að vera svo þykk að hún leki ekkert.
Setjið olíu á pönnu en ekki forhita pönnuna. Setjið helluna á hæsta styrk um leið og þið byrjið að setja hveitikímsblönduna á pönnuna. Dreifið mjög vel úr blöndunni þannig að hún líkist pönnuköku, gott er að hafa hana aðeins þynnri í miðjunni en við endana því endarnir steikjast mest.

Hveitikím getur verið svolítið erfitt í eldun því það blæs ekki út eða "lokar sér" eins og blanda úr eggjum og hveiti, þess vegna er mikilvægt að nota góða, viðloðunarfría pönnu sem ekki er farin að skemmast eða er orðin gróf. Einnig er gott að nota breiðan en þunnan spaða til að snúa kexinu við.

Steikið kexið dágóða stund á fyrstu hliðinni, sveiflið pönnunni örlítið svo olían leki yfir efri hlið kökunnar. Lækkið hitann og snúið kökunni við, þetta getur þurft að endurtaka nokkrum sinnum til þess að kakan bakist jafnt og brenni ekki. Kælið kökuna og berið síðan fram volga með smjörklípu.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær síða - takk fyrir hana! Ég er á svipuðu fæði og þú, endilega kíktu við, ég skrifa stundum inn uppskriftir líka :-)

www.minnkandi.bloggar.is