þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Ís!!!

Nú er ég búin að birta uppskriftir að venjulegum kvöldmat, venjulegum hádegismat, meðlæti og eftirrétti (kexið) og þá er komið að morgunmat. Þetta er reyndar ekki "venjulegur" morgunmatur því venjulega fæ ég mér egg og beikon en þetta er uppáhaldsmorgunmaturinn minn og hann fæ ég mér um helgar og svona spari. Þennan ís þarf að undirbúa daginn áður.

Ís - morgunmatur keisaraynjunnar

2 1/2 dl nýmjólk eða G-mjólk (G-mjólk er feitari og hentar vel í ísinn)
1 stórt egg
salt á hnífsoddi
30-45 g sykurlaust vanillusíróp frá Da Vinci

Setjið allt saman í pott og hrærið mjög vel saman. Ég nota lítinn mjólkurþeytara úr IKEA til að þeyta eggið extra vel saman við mjólkina. Setjið pottinn á eldavélahellu og hitið blönduna á lágum straum. Hrærið reglulega í á meðan blandan hitnar og þegar hún er orðin heit og aðeins farin að þykkna má taka hana af hellunni. Kælið blönduna í nokkra tíma eða yfir nótt.
Það er ekki nauðsynlegt að Da Vinci-sírópið sé með vanillubragði en verandi ísáhugamaðurinn sem ég er þá hef ég komist að því að mér finnst alltaf best að a.m.k. hluti af sírópinu sé með vanillubragði. Að sjálfsögðu má nota aðrar bragðtegundir t.d. er mjög gott að nota white chocolate, cookie dough eða butterscotch og blanda saman nokkrum bragðtegundum.

Hellið blöndunni í ísvél og hrærið/frystið þar til æskilegri ísáferð er náð. Þeir sem ekki eiga ísvél hafa þrjá kosti: a) Farið í efnafræðileik. Rífið niður mikið af klökum og setjið í stóra og víða skál, hellið hellingi af salti yfir. Setjið ísblönduna í aðra minni skál og setjið skálina ofan í söltuðu klakana. Salt og klakar mynda krap sem frystir ísinn í minni skálinni en á meðan það er að gerast þarf að hræra reglulega í ísblöndunni með gaffli og skafa það sem er frosið úr börmunum.
b) Hellið ísblöndunni í skál og inn í frysti. Hrærið í blöndunni á u.þ.b. 15-20 mín fresti þar til æskilegri ísáferð er náð.
c) (þessi aðferð er bara til sem hugmynd og hefur ekki enn verið prófuð - þeir sem prófa mega endilega deila reynslu sinni). Frystið ísblönduna í nokkrum skömmtum. Ísblandan verður að grjóthörðum klaka ef hún er fryst án þess að hrært sé í henni. Látið hvern skammt vera þannig á stærðina að hann passi fyrir opið á matvinnsluvél. Setjið grænmetisraspara á matvinnsluvélina og látið hana um að rífa ísklumpana niður í fínan salla. Skellið í skál og athugið hvernig þetta virkar ;)


Kanilepli

1 epli
2 msk. smjör/smjörvi
3-4 msk. kanilsykur (kanill og xylitol)
2 tsk. kanill
1 msk. sykurlaust vanillusíróp frá Da Vinci

Flysjið og kjarnhreinsið epli og skerið það í smáa bita. Bræðið smjör í potti, setjið eplið saman við og dreifið kanilsykri og kanil yfir. Hrærið vel saman og hafið mikinn hita undir. Hellið vanillusírópi út í þegar kanilsykurinn er bráðnaður saman við smjörið og hrærið saman. Látið eplabitana malla í svolitla stund í "karamellunni". Setjið eplabitana í skál og berið fram með ísnum. Kanilepli passa líka mjög vel bara með glasi af kaldri mjólk.

Engin ummæli: