miðvikudagur, 28. maí 2008

Kínverskur

Svei mér kominn tími á meiri mat.
Hér er kvöldmatur gærkvöldsins sem var tilraun en heppnaðist svo rosalega vel að hann verður að fá að fara niður á blað. Það má að sjálfsögðu nota hvaða kjöt sem er og nautakjöt eða kjúklingur myndi passa vel hér líka en í gær var það svínakjöt því ég er að spara og það var á tilboði.


Wok-grænmeti með sesamfræjum og svínakjöti


1/4 hvítkálshöfuð
1 blaðlaukur
1 rauðlaukur
2 paprikur
6 msk. olía
4-5 msk. sesamolía
5-6 msk. sesamfræ
4 msk. engiferrót, söxuð
3 chili-aldin, söxuð
4 msk. tamarind-sósa
3 msk. xylitol
600 g svínakjöt, skorið í bita eða strimla

Sneiðið allt grænmeti niður í granna, langa strimla. Hitið 3-4 msk. af olíu og 2-3 msk. af sesamolíu í djúpri pönnu eða wok-pönnu, bætið 3 msk. af sesamfræjum, 2 msk. af engiferrót og helmingnum af chili á pönnuna og steikið síðan grænmetið. Hellið 2-3 msk. af tamarind-sósu yfir og stráið 1 1/2 msk. af xylitoli ofan á. Hrærið vel í og steikið í u.þ.b. 10-15 mín.
Hitið afganginn af olíunum á annarri pönnu, bætið sesamfræjum, engiferrót og chili saman við og steikið svínakjöt í blöndunni. Hellið restinni af tamarind-sósunni yfir ásamt xylitolinu og steikið þar til kjötið er fullsteikt. Setjið saman á disk eftir smekk og hentisemi og dreypið t.d. sesamolíu yfir.

Engin ummæli: