miðvikudagur, 28. maí 2008

Hveitikímspítsa

Hveitikíms-pítsa

Botn:

30 g hveitikím
1/2 msk. ítalskar kryddjurtir
1/2 dl vatn (meira ef þarf)
1 msk. olía, bragðlítil t.d. Ísío4

Hitið ofninn í 200°C. Blandið hveitikími og kryddjurtum saman í bolla eða glasi og bætið vatni saman við í smáum skömmtum, hrærið í á milli þar til blandan verður hæfilega þykk og vel samlöguð. Blandan á að vera álíka þykk og miðlungsþykkur hafragrautur. Klæðið ofnplötu með smjörpappír og smyrjið olíu á pappírinn. Hellið „deiginu“ ofan á pappírinn og dreifið úr því þannig að úr verði þunnur og hringlaga botn. Gætið þess að hann sé sem jafnastur á þykkt og að engin göt séu í deiginu.
Bakið í 15-20 mínútur eða þar til botninn virðist laus við nær allan raka.

Álegg:
grænmeti að eigin vali, t.d. paprika, laukur og sveppir
olía til steikingar
tómatmauk
1-2 msk. vatn
krydd, eftir smekk
álegg að eigin vali, t.d. pepperoni og skinka
ostur, rifinn
2 msk. olía
2 hvítlauksgeirar
Maldon-salt

Steikið grænmeti í svolítilli olíu á pönnu eða setjið það í álpappír og bakið í ofninum um leið og pítsubotninn. Takið botninn úr ofninum og smyrjið tómatmauki ofan á, gott er að þynna tómatmaukið með vatni og krydda t.d. með örlitlu chili-dufti, salti og ítölskum kryddjurtum. Setjið álegg á botninn, dreifið grænmeti ofan á og stráið osti yfir. Bakið aftur í 15-20 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og fer að taka lit. Hellið olíu í litla skál og setjið hvítlauk út í, ef olían er hituð örlítið næst meira bragð úr hvítlauknum. Berið pítsuna fram með hvítlauksolíu og stráið Maldon-salti yfir hana.

Vegna þess að hveitikím bakast hægt þarf að forbaka (í raun þurrka) botninn og best er að gera frekar nokkra litla botna en að gera stóran botn fyrir alla fjölskylduna því kímið er laust í sér og bakast illa inn að miðju ef botninn er stór. Forbakaðir botnar geymast vel í frysti.

Engin ummæli: