miðvikudagur, 9. september 2009

Einhvers konar Baba Ganoush (eggaldinmauk)

Baba Ganoush er eggaldinmauk sem ættað er frá Mið-Austurlöndum og er yfirleitt notað sem ídýfa fyrir brauð en það virkar líka vel sem sósa með ýmsum mat. Í upprunalegu uppskriftinni er notað tahini en hér er notast við sesamolíu og sesamfræ til að ná fram svipuðum áhrifum.

2 eggaldin (3 ef þau eru lítil)
sesamolía til að pensla með
1 laukur
3 msk. sesamolía
1/2 dl sítrónusafi
klípa af salti
1 msk. tamari-sojasósa
handfylli af kóríander
2-4 hvítlauksgeirar

Hitið ofninn í 200 °C. Skerið eggaldin í tvennt eftir endilöngu, leggið hlutana með hýðið niður á bökunarpappírsklædda ofnplötu og penslið yfir með sesamolíu. Bakið eggaldinhlutana í 20-30 mínútur og leyfið þeim síðan að kólna. Saxið lauk og steikið upp úr sesamolíu (þessu má sleppa). Skafið kjötið innan úr eggaldinhýðinu, t.d. með gaffli, og setjið í matvinnsluvél ásamt ölluð öðru hráefni. Látið vélina ganga þar til maukið er orðið vel samlagað og kælið maukið í a.m.k. 2 klst. áður en það er borið fram.

Engin ummæli: