fimmtudagur, 28. ágúst 2008

Rófustappa

Þessi uppskrift er upphaflega að fyllingu í indverskar pönnukökur en ég hef notað stöppuna eina og sér með kjúklingi. Uppskriftin birtist í 11. tbl. Gestgjafans 2008 og er hér birt með leyfi höfundar. Uppskriftin er örlítið breytt frá því sem sést í Gestgjafanum en kartöflum er skipt út fyrir rófur. Í stöppuna mætti einnig nota grasker og bæta við vorlauk, prófið ykkur áfram.

1 tsk. sinnepsfræ
2 msk. olía
1/2 laukur
2 hvítlauksgeirar, saxaðir
1/2 - 1 grænt eða rautt chili-aldin, saxað
1/2 msk. karrílauf (hér nota ég alltaf karrí de lux frá Pottagöldrum)
1/2 tsk. túrmerik
1 msk. sítrónusafi
400 g soðnar rófur, skornar í teninga (gott er hafa nokkrar gulrætur með)

Steikið sinnepsfræ í olíu þar til þau fara að skoppa. Bætið þá lauk út í og steikið þar til hann er orðinn gullinn. Bætið hvítlauk, chili-aldini og karrílaufum (karrí de lux) saman við og steikið aðeins áfram. Setjið túrmerik og sítrónusafa út í ásamt kartöflum og merjið saman.

Ég mæli með að þið notið svolítið af karríi til að krydda kjúklinginn eða það kjöt sem þið ætlið að matreiða og sérstaklega finnst mér gott að nota fituna sem hefur lekið af kjúllanum sem fituskammtinn minn. Það er æðislegt að gera stóra uppskrift og ég nota jafnan smáslatta af salti þegar ég stappa þetta saman eða strái því yfir eftir á.