föstudagur, 5. september 2008

Kryddlegin hjörtu með grænmeti

Þetta er sannur kreppumatur en hver segir að hann þurfi að bragðast illa. Uppskriftin hér er miðuð við stóran skammt og þá er annað hvort hægt að skella með í nesti daginn eftir eða fóðra meðalstóra fjölskyldu eitt kvöld. Yngstu fjölskyldumeðlimirnir verða kannski ekkert svo hrifnir því rétturinn er sterkur, það má þó auðvitað minnka magnið af chili-pipar eða jafnvel sleppa honum.

800 g lambahjörtu, mesta fitan snyrt frá
3 rauð chili-aldin
6 hvítlauksgeirar
þumalfingursstór bútur af engiferrót

1 pk. haricot-baunir
1-2 paprikur
2 rauðlaukar
1/4 blómkálshaus
6 tsk. GEO korma karrímauk (fæst m.a. í Hagkaupum)
salt

Skerið lambahjörtu í strimla og síðan í smáa bita, setjið í skál. Skerið chili-aldin eftir endilöngu og hreinsið fræin innan úr. Saxið chili, hvítlauk og engifer smátt niður og setjið helminginn í skálina með lambahjörtunum, geymið afganginn.
Saxið allt grænmetið frekar smátt niður , a.t.h. að það er ekki nauðsynlegt að nota akkúrat þessar grænmetistengundir, veljið það sem ykkur þykir best. Setjið saxaða kryddið í víðan pott ásamt olíu og hitið vel, hellið þá grænmetinu út í og steikið í 5-8 mín. Bætið 3 tsk. af karrímauki saman við og steikið áfram í svolitla stund.
Hitið olíu á pönnu og steikið lambahjörtun í 3-4 mín. Kryddið með salti og afganginum af karrímaukinu og látið malla undir loki í nokkrar mínútur til viðbótar. Berið fram með steikta grænmetinu og t.d. rófustöppunni sem er hér á undan.

Ef þið eruð ekki í kreppupælingum þá má að sjálfsögðu nota dýrari og betri vöðva í þennan rétt.

Engin ummæli: