miðvikudagur, 5. desember 2007

Nautahakk með fetaosti og blómkálsmús

Þessi réttur er ótrúlegalega mikill miðvikudagsréttur, of góður fyrir mánudaga en samt ekki svona gourmet veislumatur fyrir helgarnar. Blómkálsmúsin hentar rosalega vel með fleiri réttum þar sem venjan er að hafa kartöflumús og meira að segja kallinum mínum, sem þó elskar kartöflur, finnst þessi mús algjört sælgæti. Það er rosalega þægilegt að elda þennan rétt í nægu magni svo hægt sé að hafa hann í hádegismat daginn eftir.

Nautahakk með fetaosti

2/3 krukka af fetaosti (eða meira eftir smekk)
500 g nautahakk
3 hvítlauksgeirar, pressaðir
1-2 msk. Italian Seasoning frá McCormick (eða rósmarín, tímían og oregano)
salt og svartur pipar

Hellið olíu af fetaosti á pönnu og steikið hakk á háum hita þar til það er nánast allt orðið brúnað. Kryddið með hvítlauk, kryddjurtum og salti og pipar á meðan kjötið er að steikjast. Setjið fetaost út í hakkið og hrærið í því. Hægt er að stjórna því hversu mikið osturinn bráðnar, hann getur orðið að sósu sem umlykur allt kjötið eða í bitum í kjötinu, þetta veltur á því hversu snemma osturinn er settur saman við hakkið.

Blómkálsmús

1 blómkálshaus
1/3 sellerírótarhaus
10 dropar Hermesetas-sætuvökvi
salt og pipar
múskat (má sleppa)
2-3 msk. smjör

Takið blómkálshaus í sundur og skerið í hæfilega stóra bita, skerið sellerírót í smáa bita og setjið ásamt blómkáli í pott með sjóðandi vatni. Sjóðið í u.þ.b. 10 mín. eða þar til blómkálið verður meyrt, gætð þess að mauksjóða það ekki. Sigtið vatnið frá blómkálinu og sellerírótinni og maukið bitana í matvinnsluvél. Setjið sætuefni og krydd saman við og hrærið svolítið áfram þar til engir stórir bitar eru eftir í maukinu. Setjið smjör í pottinn, hellið blómkálsmaukinu saman við steikið það í smjörinu stutta stund, hrærið vel í á meðan og alls ekki láta blómkálsmaukið brúnast.

Berið hakkið og fetaostinn fram með blómkálsmauki, fersku, blönduðu salati og salatdressingu.