föstudagur, 30. nóvember 2007

Salatdressing/kryddlögur

Þetta er salatdressingin sem gerði mér kleift að borða allt grænmetið sem maður þarf á að halda þegar maður hendir kolvetnunum út. Þessi blanda er líka mjög sniðug sem kryddlögur á lambakjöt og grænmeti sem á að elda. Það er mjög þægilegt að búa til stóran skammt í einu því dressingin geymist mjög vel í lokuðu íláti í kæliskáp.

Salatdressing


2/3 dl Dijon-sinnep
1/2 msk. svartur pipar
1 msk. Italian seasoning-kryddblanda (eða tímían, óreganó og rósmarín)
1-1 1/2 msk. balsamedik
1/2 msk. tamarind-sósa, má sleppa
3 hvítlauksgeirar, pressaðir
2-3 tsk. sítrónusafi, má sleppa
1/2 msk. Hermesetast-sætudropar
1 dl olía

Setjið allt saman í skál og hrærið vel með gaffli þar til allt er vel samlagað og olía og sinnep hætt að skiljast að. Þegar búin er til stór uppskrift má setja allt nema olíu í matvinnsluvél, þeyta saman og hella síðan olíunni saman við á meðan vélin gengur.
Það er hægt að nota Xylitol eða canderel í staðinn fyrir sætudropana en þá þarf svolítið meira magn.

Þessi dressing flokkast undir fitu eftir að hún er blönduð en hægt er að mæla olíuna á undan og blanda síðan öllu kryddinu og sinnepinu saman við.

þriðjudagur, 20. nóvember 2007

Ís!!!

Nú er ég búin að birta uppskriftir að venjulegum kvöldmat, venjulegum hádegismat, meðlæti og eftirrétti (kexið) og þá er komið að morgunmat. Þetta er reyndar ekki "venjulegur" morgunmatur því venjulega fæ ég mér egg og beikon en þetta er uppáhaldsmorgunmaturinn minn og hann fæ ég mér um helgar og svona spari. Þennan ís þarf að undirbúa daginn áður.

Ís - morgunmatur keisaraynjunnar

2 1/2 dl nýmjólk eða G-mjólk (G-mjólk er feitari og hentar vel í ísinn)
1 stórt egg
salt á hnífsoddi
30-45 g sykurlaust vanillusíróp frá Da Vinci

Setjið allt saman í pott og hrærið mjög vel saman. Ég nota lítinn mjólkurþeytara úr IKEA til að þeyta eggið extra vel saman við mjólkina. Setjið pottinn á eldavélahellu og hitið blönduna á lágum straum. Hrærið reglulega í á meðan blandan hitnar og þegar hún er orðin heit og aðeins farin að þykkna má taka hana af hellunni. Kælið blönduna í nokkra tíma eða yfir nótt.
Það er ekki nauðsynlegt að Da Vinci-sírópið sé með vanillubragði en verandi ísáhugamaðurinn sem ég er þá hef ég komist að því að mér finnst alltaf best að a.m.k. hluti af sírópinu sé með vanillubragði. Að sjálfsögðu má nota aðrar bragðtegundir t.d. er mjög gott að nota white chocolate, cookie dough eða butterscotch og blanda saman nokkrum bragðtegundum.

Hellið blöndunni í ísvél og hrærið/frystið þar til æskilegri ísáferð er náð. Þeir sem ekki eiga ísvél hafa þrjá kosti: a) Farið í efnafræðileik. Rífið niður mikið af klökum og setjið í stóra og víða skál, hellið hellingi af salti yfir. Setjið ísblönduna í aðra minni skál og setjið skálina ofan í söltuðu klakana. Salt og klakar mynda krap sem frystir ísinn í minni skálinni en á meðan það er að gerast þarf að hræra reglulega í ísblöndunni með gaffli og skafa það sem er frosið úr börmunum.
b) Hellið ísblöndunni í skál og inn í frysti. Hrærið í blöndunni á u.þ.b. 15-20 mín fresti þar til æskilegri ísáferð er náð.
c) (þessi aðferð er bara til sem hugmynd og hefur ekki enn verið prófuð - þeir sem prófa mega endilega deila reynslu sinni). Frystið ísblönduna í nokkrum skömmtum. Ísblandan verður að grjóthörðum klaka ef hún er fryst án þess að hrært sé í henni. Látið hvern skammt vera þannig á stærðina að hann passi fyrir opið á matvinnsluvél. Setjið grænmetisraspara á matvinnsluvélina og látið hana um að rífa ísklumpana niður í fínan salla. Skellið í skál og athugið hvernig þetta virkar ;)


Kanilepli

1 epli
2 msk. smjör/smjörvi
3-4 msk. kanilsykur (kanill og xylitol)
2 tsk. kanill
1 msk. sykurlaust vanillusíróp frá Da Vinci

Flysjið og kjarnhreinsið epli og skerið það í smáa bita. Bræðið smjör í potti, setjið eplið saman við og dreifið kanilsykri og kanil yfir. Hrærið vel saman og hafið mikinn hita undir. Hellið vanillusírópi út í þegar kanilsykurinn er bráðnaður saman við smjörið og hrærið saman. Látið eplabitana malla í svolitla stund í "karamellunni". Setjið eplabitana í skál og berið fram með ísnum. Kanilepli passa líka mjög vel bara með glasi af kaldri mjólk.

þriðjudagur, 13. nóvember 2007

Hveitikímskex

Þetta undarlega mjöl sem kallast hveitikím (a.t.h. ekki klíð) samræmist einhverra hluta vegna kolvetnislausu mataræði og hægt er að búa til úr því gerfibrauðsneiðar, pizzubotna og fleira. Hveitikím fæst í tveimur gerðum; annars vegar ljóst, ferskt hveitikím sem þarf að geyma í kæli og hins vegar dökkt, þurrkað hveitikím sem ekki þarf að geyma í kæli. Þurrkað hveitikím loðir illa saman og þess vegna á ég alltaf við ferskt hveitikím í uppskriftunum mínum nema annað sé sérstaklega tekið fram.

Hveitikímskex

30 g hveitikím
25-30 g sykurlaust síróp frá Da Vinci, bragð að eigin vali
1 msk. vatn
4-5 msk. olía til steikingar

Hrærið saman hveitikím, síróp og hluta af vatni. Bætið meira vatni saman við þar til blandan er orðin "slummu"-þykk. Blandan á ekki að leka of auðveldlega en heldur ekki að vera svo þykk að hún leki ekkert.
Setjið olíu á pönnu en ekki forhita pönnuna. Setjið helluna á hæsta styrk um leið og þið byrjið að setja hveitikímsblönduna á pönnuna. Dreifið mjög vel úr blöndunni þannig að hún líkist pönnuköku, gott er að hafa hana aðeins þynnri í miðjunni en við endana því endarnir steikjast mest.

Hveitikím getur verið svolítið erfitt í eldun því það blæs ekki út eða "lokar sér" eins og blanda úr eggjum og hveiti, þess vegna er mikilvægt að nota góða, viðloðunarfría pönnu sem ekki er farin að skemmast eða er orðin gróf. Einnig er gott að nota breiðan en þunnan spaða til að snúa kexinu við.

Steikið kexið dágóða stund á fyrstu hliðinni, sveiflið pönnunni örlítið svo olían leki yfir efri hlið kökunnar. Lækkið hitann og snúið kökunni við, þetta getur þurft að endurtaka nokkrum sinnum til þess að kakan bakist jafnt og brenni ekki. Kælið kökuna og berið síðan fram volga með smjörklípu.

mánudagur, 12. nóvember 2007

Hið alræmda beikonsalat

Ég er enn þá í hversdagsmatnum. Kannski vegna þess að ég er að spara veisluföngin en kannski bara vegna þess að hversdagsmatur á svo stóran sess í lífi mínu, ég borða hann jú, oftar en fíneríið.
Þetta beikonsalat er búið að vera á matseðlinum hjá mér nánast upp á hvern einasta dag (stundum meira að segja tvisvar á dag) í heilt ár og ekki að ástæðulausu.

Beikonsalat

1 kjúklingalæri
Eðal-kjúklingakrydd frá Pottagöldrum
1 pk. beikon (því þyngri því betra)

Hitið ofninn í 200°C. Kryddið kjúklingalæri með kjúklingakryddi (eða öðru kryddi að eigin vali) og eldið í u.þ.b. 45 mín. Steikið beikon á pönnu eða á álpappír í ofni. Skerið kjúkling og beikon í litla bita eða teninga.

Sætar gulrætur:
150 - 200 g gulrætur, skornar í sneiðar
2 msk. bragðlítil olía, t.d. ísíó4
1-1 1/2 msk. Hermesetas sætudropar

Sjóðið gulrætur 5 mínútur, hellið vatninu af og setjið pottinn aftur á heita helluna. Hellið olíu yfir gulræturnar ásamt sætudropum og steikið í u.þ.b. 10 mínútur.

Salat:
icebergsalat
gúrka
tómatar
paprika
rauðlaukur

1 msk. Helmans-majónes

Skerið helling af grænmeti niður eftir smekk og hentisemi. Setjið kjúkling, beikon, steiktar gulrætur og majónes saman við og hrærið vel saman.

Ástæðan fyrir því að þetta salat er svo oft í matinn hjá mér er sú að það er svo auðvelt að hafa það með sér í nesti. Vegna þess að ég hef góða aðstöðu í vinnunni set ég kjúklinginn, beikonið og gulræturnar í sér box og hita upp áður en ég blanda því saman við salatið og majónesið. Til að flýta enn frekar fyrir elda ég yfirleitt heilan pakka af kjúklingalærum í einu og á í kæli til að grípa í á hverju kvöldi, það sama gildir um gulræturnar. Það er rosalega gott að setja eplabita út í þetta salat og "spari" sleppi ég kjúklingnum og hef tvöfaldan skammt af beikoni.

Einu kjúklingabringurnar sem ég borða eru frá Móa því aðrar kjúklingabringur innihalda yfirleitt sykur. Það sama gildir um kjúklingalæri því núna fyrir stuttu bætti Holtakjúklingur sykri í innihaldslýsinguna á kjúklingalærunum sínum.

fimmtudagur, 8. nóvember 2007

Steiktur þorskur og sultaður laukur

Auðvitað fékk ég svo kast yfir því hver fyrsta uppskriftin ætti að vera og í framhaldinu ákvað ég að setja inn kvöldmatinn minn í kvöld. Hann var einfaldur og hversdagslegur og á það fullvel skilið að fá að prýða þessa síðu sem fyrsta uppskriftin.
Þegar ég var hálfnuð með eldamennskuna fékk ég þá flugu í höfuðið að sultaður rauðlaukur gæti passað vel með þessu og viti menn - það reyndist rétt a.m.k. hvað mína bragðlauka varðar.

Steiktur þorskur

2 egg
2 dl sojahveiti
krydd, t.d. sítrónupipar, kóríander og hvítlaukssalt
1 1/2 stórt þorskflak
olía til steikingar
sítrónusafi, má sleppa

Brjótið egg í djúpan disk og hrærið vel með gaffli. Setjið sojahveiti í annan djúpan disk og blandið kryddi vel saman við. Skerið þorskflak í hæfilega stóra bita og veltið fyrst upp úr eggjahræru og síðan upp úr sojahveiti. Hitið olíu á pönnu og steikið þorskbitana, kreystið sítrónusafa yfir fiskinn rétt áður en hann er fullsteiktur. Berið fram með soðnum rófum, sultuðum lauk og setjið smjörklípu og salt ofan á. Mæli líka með mjólkurglasi með þessu öllu saman.

Sultaður laukur - grunnuppskrift

3 rauðlaukar, gróft saxaðir
3-4 msk. olía, til steikingar
1/2 - 2/3 dl balsamedik
1/2 dl vatn
2-3 msk. Hermesetas-sætudropar, einnig má nota Canderel-strásætu)
2 tsk. engifer, eða 1 cm söxuð engiferrót
sítrónusafi, má sleppa

Steikið lauk í olíu í potti þar til hann verður glær, ekki brúna. Hellið balsamediki yfir laukinn og bætið svolitlu vatni saman við. Setjið sætudropa út í og hrærið vel í. Bætið engifer og sítrónusafa saman við, lækkið hitann og leyfið lauknum að malla í 10-15 mín. Hrærið reglulega í pottinum. Til að byrja með er svolítill vökvi á lauknum sem gufar síðan upp og eftir situr dökkur og karamellaður laukur. Þessa uppskrift er gott að stækka, t.d. fyrir jólin, því laukurinn geymist vel í lokuðu íláti í kæli.

Þessi uppskrift varð til eftir að villibráðarbæklingur Nóatúns datt inn um lúgun hjá mér fyrir jólin 2006. Þar var sultaður laukur sem var örugglega ekkert líkur þessum og í uppskriftinni var örugglega 1/2 kg af sykri. En það var nafnið sjálft sem kveikti hugmyndina og ég linnti ekki látum fyrr en þetta dásamlega meðlæti hafði litið dagsins ljós. Sultaður laukur passar rosalega vel með villibráð (lamb meðtalið) og nautakjöti og með slíkum máltíðum er ekki verra að hafa smjörsteikta sveppi við hliðina á honum. Það var bara núna í kvöld sem ég áttaði mig á því hvað hann passar vel með steikta þorskinum, breytti allri máltíðinni hreinlega í hið mesta sælgæti.

Upphafspósturinn "disclaimer"

Þessi síða er sjálfstæður og óháður miðill og styður hvorki menn né málefni á hvorn veginn sem er þó höfundurinn kunni að gera það. Ég er áhugamanneskja um kolvetnislaust fóður og set því hingað inn upplýsingar, hugmyndir og auðvitað uppskriftir að slíku fóðri.

Nokkrar einfaldar línur sem þarf að hafa í huga þegar talað er um kolvetnislaust mataræði (eins og ég skil það):

* Hveiti er hveiti - spelt er líka hveiti, heilhveiti er líka hveiti og hveitiklíð er líka hveiti, rúgmjöl er meira að segja hveiti - og hveiti er ákaflega kolvetnaríkt.

* Pasta er nær undantekningalaust búið til úr hveiti - líka speltpasta og heilhveitipasta.

* Sykur er sykur - líkt og með hveiti þá er hrásykur, hlynsíróp, ávaxtasykur, púðursykur og agave-síróp, líka sykur - og sykur er gríðarlega kolvetnaríkur.

* Hrísgrjón eru kolvetnarík - hvernig sem þau eru á litinn og líka þegar þau eru með hýðinu á.

* Kartöflur eru kolvetnaríkar og fullar af sterkju - líka sætar kartöflur og kartöflumjöl.

* Kornsíróp (corn-syrup), maíssterkja (mais starch), mjólkursykur (lactose) og dexstrose eru tegundir sykurs.

* Bananar, vatnsmelónur, vínber og perur eru dæmi um kolvetnaríka ávexti.

* Áfengi er kolvetnaríkt - ekki bara bjór heldur líka rauðvín, hvítvín, vodka, gin og léttbjór. Reyndar minnir mig að alkóhól sé ein tegund sykurs en ætla ekki að selja þær upplýsingar neitt sérlega dýrum dómum.